Matur

Ég sakna þess að elda ekki lengur! Ég tók þá ákvörðun fljótlega eftir komu mína til Vínarborgar að ég myndi ekki elda hér. Ástæðan? Jú, það er ekki uppþvottavél á heimili mínu. Ég get ómögulega vaskað upp, mér finnst það svo leiðinlegt. Nú er aftur á móti svo komið að mig langar að elda. Ég rakst á matarblogg hjá unglækni (man ekki slóðina) þar sem hann bloggar bara um mat sem hann eldar. Ég fór strax að huga að næsta matarboði en mundi svo allt í einu: a) ég elda ekki, þar sem engin er uppþvottavélin, b) ég er ekki beint með aðstöðu til að bjóða fjölda fólks í mat. Nú eru góð ráð dýr.

 Mig langar að fara að gera heimili mitt heimilislegt. Ég veit samt bara ekki hvort það tekur því. Ég er kominn með fullt af hugmyndum til að gera þetta aðeins svona íbúðarhæfara, en eins og er, má halda því fram að hýbýli mín séu mjög spartönsk. Á ég að gera eitthvað fyrir lítinn pening þó, eða á ég bara að búa við núverandi fyrirkomulag, ef til vill bæta við 1-2 stólum. What to do, what to do. Sex mánuðir á einum stað er allt of lítill tími. Kannski ætti ég bara að ákveða að dveljast lengur í Vínarborg. Eins og venjulega að þá er að koma yfir mig svona ákvörðunarflótti. Ég þarf að fara að taka ákvörðun fyrir næsta haust. Í hið minnsta hvort ég ætla að finna mér eitthvað nám næsta haust því þá þarf ég að fara að sækja um. Ætti ég kannski bara að stefna á að vera í Vínarborg fram að áramótum og nýta tímann til að skrifa mastersritgerð? Annars langar mig doldið að sækja um diplómanám við Diplomatische Akademie hér í Vín. Vandamálið? Jú, þetta kostar litlar 9800 evrur og svo eru bara 30 teknir inn. Væri samt freistandi að sjá hvort maður kæmist inn, og hugsa svo um kostnaðinn seinna. Eins og ég segi alltaf: maður á að hugsa í lausnum en ekki vandamálum (mætti samt gera meira af því sjálfur).

 Stundum vildi ég að heimurinn væri einfaldari. Það væru bara 5 námsleiðir í boði við Háskóla Íslands, þar sem allir Íslendingar myndu læra. Þá væri muuun einfaldara að taka ákvarðanir.

 


Alslaus

Ég týndi veskinu mínu! Ég er pretty much alslaus hér í Vínarborg, þar sem mér tókst líka að gleyma vegabréfinu mínu í Brussel að þá get ég ekki einu sinni tekið út pening úr bankanum! Lét senda mér nýtt kreditkort með DHL og fæ það vonandi í dag eða á morgun. Þangað til verð ég að lifa á loftinu. Móður minni fannst þetta fyndið og sagði þetta gott á mig.

 Annars er alltaf sama blíðan hér í Vínarborg, öfugt við Brussel, en þangað fór ég á DEMYC stjórnarfund yfir helgina. Þar rigndi og var grátt og leiðinlegt veður. Svo þegar ég var að fara til baka á þriðjudagskvöld að þá byrjaði að snjóa aðeins. Þeir voru nú ekki betur undirbúnir undir snjóinn í Brussel að öllu flugi seinkaði og fór svo að ég þurfti að sitja í flugvélinni í þrjá klukkutíma áður en við máttum taka á loft. Gaman eða ekki! Treysti því að Sunna flugumferðarstýra muni höndla hlutina öðruvísi þegar hún verður við stjórnvölinn!

 Annars verð ég að nýta tækifærið og óska Sólskini til hamingju með að hafa komist í gegnum niðurskurðinn og er nú á góðri leið með að verða flugumferðarstýraGrin

 Ég leik símastúlku í sendiráðinu í dag svo fólki er velkomið að hringja í mig ef því leiðist.


Lífinu bjargað

Ég er kominn með ræstingarkonu sem straujar og vaskar upp líka! Held að líf mitt verði mun innihaldsríkara hér í Vínarborg eftir þetta! Ég er alveg í skýjunum.

Vínardjamm

Er dottinn í djammgírinn. Á síðasta fimmtudag hittumst nokkrir starfsnemar á írskum pöbb. Það þarf auðvitað ekki að taka fram að ég gætti mín að halda uppi nafni Íslands þegar kemur að drykkju og úthaldi. Var kominn heim um hálf þrjú um nóttina. Var svo mættur ferskur í vinnu daginn eftir kl. 09. Á föstudag var svo aftur starfsnemahittingur. Við hættum samt snemma í sendiráðinu og varð úr að ég og Ingibjörg ritari og Hlynur bílstjóri fórum á bar og fengum okkur drykk. Endaði ég á að fá mér tvö hvítvínsglös þar. Ágætis upphitnun. Síðan hitti ég starfsnemana og varð úr (auðvitað lét ég mig ekki vanta) að ég fór með nokkrum frökkum á klúbb sem heitir Passage. Þetta er svona algjör snobbklúbbur Vínarborgar. Þarna hittist fyrir ríka og fína fólkið og hafði ég af því hina mestu skemmtun að virða liðið fyrir mér.

Vikan í orðum

Þessi vika er búin að vera mjög strembin en þó skemmtileg. Allt stafar það út af því að ég er búinn að vera á bráðskemmtilegu ÖSE námskeiði (General Orientation) sem er ekki beint hugsað fyrir mig, heldur starfsmenn ÖSE sem eru að fara að vinna á vettvangi ÖSE í einhverjum missionum (Kósóvó, Bosníu, Kasakstan, Túrkmenistan etc). Þarna var verið að fara yfir stofnunina, kenna fólki á tölvukerfið, kenna fólki að skrifa skýrslur, kenna fólki að vera leiðtogar, kenna fólki að vera project manager og svo framvegis. Mjög skemmtileg. Vandamálið var hins vegar að námskeiðið var frá 9 - 18 og svo þurfti ég eftir það að sinna nokkrum verkefnum. Vandamálið var samt aðallega að eftir námskeiðið fór ég í ræktina og svo fékk ég mér mjög fljótan kvöldverð en þá var klukkan yfirleitt orðin átta. Hef ég því setið langt frameftir (og ekki verið kannski mjög próduktífur) alla þessa vikuna. Það sem skiptir þó máli að ég geri þetta því mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt. Ótrúlegt hvað það er mikið af skemmtilegum og fjölbreyttum verkefnum hérna í sendiráðinu fyrir mig að vinna að. Ég lýg því ekki þegar ég segi að ég fari heim í dag með gríðarlegan verkefnastafla á borðinu mínu.

 

Vínarbúar eru annars furðulegir. Ég er alltaf að sjá það betur og betur. Fyndnust finnst mér þó heilsuræktartískan hjá Vínarbúum. Mind you að ég sæki svona frekar flottan stað þar sem fína og flotta fólkið heldur til. Flestir karlmenn virðast annað hvort vera í NÍÐþröngu spandexoutfitti, leggingsbuxum eða svona 80's mjög stuttum og asnalegum stuttbuxum, helzt í pastellitum. Konurnar eru oft í svo efnislitlum klæðnaði að ég hélt fyrstu dagana að þær væru á leið í sund og væru á vitlausri hæð.

 Það fynda er svo að þegar liðið er búið í sturtu klæðir það sig í Prada eða Louis Vuitton fötin sín. Veit ekki hvort því finnst íþróttaklæðnaðurinn svona flottur eða hvað... Ég ætti svosem ekki að segja mikið en ég er þó í bara venjulegum stuttbuxum og stuttermabol.

 

 


Úgg

Fann stað sem selur uppáhaldsfatamerkið mitt, og ekki bara venjulega búð heldur bara heila label búð!:D Þeir sem þekkja mig mega reyna að gizka hvað um ræðir hér. Ég hefði betur ekki fundið þetta, á eftir að koma anzi niður á buddunni ef ég þekki sjálfan mig rétt.

 Vín er annars frábært. Búinn að vera þvílíkur hiti hérna og enginn skilur neitt í neinu. Í dag rignir samt eins og hellt væri úr fötu en það er þó ekki kalt. Ætla að skella mér til Salzburgar um helgina. Síjú


Símanúmer í Vínarborg

Er kominn með austurrískt símanúmer: +43 680 2123023 Endilega hikið ekki við að hringja í mig í tíma og ótíma! Var að koma úr rándýru (en ekki eins flottri og Laugar) heilsuræktinni minni og er á leið í bíó. Stuttur stans á matsölustaðnum hér í Holmes Place (www.holmesplace.at) ræktinni til að fá mér í gogginn. Síjú

Vín

Jæja, ég er kominn til Vínarborgar eftir skemmtileg áramót í Kaupmannahöfn. Eins og ávallt virðist eins og einhver verndarengill sé yfir mér þegar kemur að flugi. Í þetta skiptið tókst mér að næstumþví klúðra fluginu mínu til Vínarborgar. Ég (hálfsofandi og úrillur) tók nefnilega metro í ranga átt í Kaupinahafn. Ekki út á Kastrup eins og ætlunin var heldur í átt að Helsingjaeyri. Ég var svo ekkert að pæla í því, fór að lesa Metro dagblaðið en var samt alltaf hálft í hvoru svona að velta fyrir mér hvort það gæti verið að ég væri í rangri lest. Það kom svo í ljós hálftíma síðar að já ég var í rangri lest. Það tók mig því líka annan hálftíma að koma mér út á Kastrup sem þýddi að ég var pretty much búinn að missa af fluginu mínu. Ég mætti upp á Kastrup 17 mínútum fyrir brottför. Vissi því eins og var að ég hefði misst af fluginu mínu og fór því í röð hjá SAS miðasölunni til að kaupa nýjan flugmiða. Ákvað samt þar sem ég nennti ekki að bíða hvort það hefði nokkuð orðið seinkunn á fluginu mínu og hitti fyrir einhverja stúlku sem var að vinna þarna og spurði hana hvort svo væri. Hún sagði svo EKKI vera en æddi með mig að tékk-inninu og lét mig í hendur manni sem bara tékkaði mig inn! Svo var ég leiddur í gegnum eitthvað fast-track og kominn út í flugvél 9.00 og flugvélin fór í loftið 9.05 á réttum tíma! Þetta kalla ég þjónustu!

 Lentur í Vín og búinn að eiga góða daga. Vinnan er só far frábær, íbúðin er alveg eins og bezt verður á kosið og þeir dagar sem ég hef átt hér hafa verið með eindæmum góðir. Skemmtilegt fólk hér í sendiráðinu og sendiherrann og Sigga konan hans, og móðir Unnar Eddu góðvinkonu eru hreint út sagt frábær! Fór út að borða með þeim á föstudag, eftir að Sveinn sendiherra hafði rúntað með mig um Vínarborg í dágóða stund og sýnt mér alla helztu staði, bæði hallir, söfn og bari.

 


Safnast þegar saman kemur

Fann til í gær alla smámynt á heimilinu og kom í ljós að þetta var sko engin smá mynt. Taldi svo saman og reiknast til að ég eigi tæpar 5000 kr. í íslenzkum krónum, 45 evrur, 20+ sterlingspund og svo aðrar myntir.

 Búinn að láta gera við bílinn. Það kostaði mig aðeins 4000 krónur með leigubílnum sem ég þurfti að taka. Yndislegt hvað það er alltaf gaman að eyða fé í ekkert.

 Sit nú í vinnunni og það er ekkert að gera, utanferð á laugardag. Mamma og pabbi, Jóhann og Dagbjört komu í gær til að hjálpa mér að pakka. Við hófumst að sjálfsögðu strax handa og er bara þónokkuð búið. Ég þarf líka að fá aðstoð í þvottum. Vona að mamma setji í einar 10 vélar í dag, væri næs svona þegar ég kem heim úr vinnunni. Hún má líka vera búin að þrífa.


Gaman...

Í anda jólanna var brotist inn í bílinn minn í nótt. Gaman að einhverjir skuli vera svona uppfullir af náungakærleik á þessum tíma. Vona bara að viðkomandi hafi verið fátækur, gefi góssið í hið minnsta til fátækra svona í anda Hróa hattar.

 Eins og háttur er hjá mér fór ég í miðnæturmessu á aðfangadag. Dagbjört systir kom með að vanda en sú nýjung varð í ár að móðir oss og bróðir ákváðu að slást í för. Ég veit ekki hvernig mamma upplifði messuna, hún var svo óheppin að sitja við hlið mér og eins og þeir sem þekkja mig vita að þá sit ég nú ekki aðgerðarlaus í messum. Eins og góðra manna er siður að þá TEK ÉG ÞÁTT í messunni. Ég syng með...  hátt og snjallt og svo virðist ég kunna öll svör í kollektunni og á öðrum stöðum og tek þátt í því líka. Ég hef af þessu hið mesta gaman en ég ætla ekki að gerast svo djarfur að svara fyrir aðra, hvort að kirkjugól mitt vekji þeim von og trú í brjósti.

 Fór í matarboð í Búbbu Sunnufrænku í gær. Bauð hún upp á dýrindis krásir eins og von var og vísa. Fóru þær stöllur ásamt þriðju frænkunni svo að ræða karlamál. Vitið þið að ég held að konur séu bilaðar. Minnti mig á söguna af bókmenntafræðingnum sem var búinn að lesa allt milli himins og jarðar út úr einhverri sögunni og þegar höfundurinn var inntur eftir því hvort þetta væri nú rétt að þá kom hann af fjöllum. Hafði sjálfur ekki áttað sig á því að sagan hans gæti haft dýpri merkingu.

 Eftir að þær frænkur höfðu volað um hríð yfir böli heimsins og slælegu gengi þeirra í karlamálum, þá aðallega út af því að einhverjir karlmenn skyldu ekki hringja til baka í þær (kommon who gives a fuck) þá kom ég með þessa skemmtilegu líkingu og sagði:

 Kommon stelpur, lífið og strákar eru eins og óplægður akur sem bíður þess að verða plægður. Það er nóg að gera og enginn tími fyrir að sitja heima og væla.

 Þeim fannst þetta fyndið en fóru fljótt í sama farið aftur.  Ég er viss um að það er hægt að hafa stelpur að féþúfu. Enda sannaðist það mjög fljótt þegar Sunna fór að tala um einhverja sjálfshjálparbókina sem hún á um hvað karlmenn eru mikil svín!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband