Jól

Búinn að eiga afskaplega góð jól. Er ákaflega sáttur og sæll, þakka öllum sem sendu mér gjöf, kort eða hlýjar hugsanir. Í anda jólanna gaf ég litla bróður bílinn minn, þó ekki í jólagjöf en þó samt. Hann fékk líka venjulegan pakka:) Styttist óðum í utanför, er kominn með íbúð og alles svo nú er mér ekkert að vanbúnaði. Ek suður á morgun og fer þá beint í að ganga frá og pakka niður. Mamma og pabbi og hele familien koma svo næsta dag til að aðstoða.

Afsökunarbeiðni!

Ég skulda Arndísi Dúnju Þórarinsdóttur feita afsökunarbeiðni. Ég mætti ekki í afmælis/innflutnings/jólaboðið hennar og Hauks! Ástæðan er einföld. Ég svaf yfir mig, ótrúlegt en satt. Sofnaði óvart og vaknaði ekki fyrr en mörgum klukkustundum seinna.

Jólafrestun!

Hef ákveðið að fresta jólunum. Ég er engan veginn að njóta þessara jóla því ég sé bara fyrir mér verkefnastaflana. Hugsa að ég haldi bara jól ca. í júní.

Íbúð í Vín

Kominn með íbúð í Vín! Um er að ræða 37 fermetra slott sem ég hef alveg út af fyrir mig!! Svo nú eru engar afsakanir lengur fyrir því að fólk komi ekki í heimsókn.

 Annars er iðjuleysið að taka á sig nýjar myndir. Farinn að taka upp á því að leggja mig þegar ég kem heim úr vinnunni. Búinn að gera þetta núna tvo daga í röð. Það þarf ekki að taka fram að þetta hefur verulega slæm áhrif. Nú sofna ég ekki fyrr en langt er liðið á kvöldið, vakna úrillur daginn eftir og legg mig svo þegar ég kem heim úr vinnunni og hringurinn endurtekur sig. Basically passar ekki dugnaður eða annað slíkt inn í þetta mynstur.

 Ég óska eftir sjálfboðaliðum til að þvo fyrir mig þvott yfir hátíðarnar. Viðkomandi þarf einungis að koma við hingað á Brúarásnum og setja í vél og taka svo úr og hengja upp (og svo aftur og aftur þangað til óhreinataushrúgan er horfin!)

 


Iðjuleysi

Ætli það sé til læknisfræðilegt hugtak fyrir ótrúlegt iðjuleysi þegar einmitt ríður á að gera sem mest! Ég er með svo stóran og langan verkefnalista að það er óheilsusamlegt EN í fyrradag fór ég að sofa mjög snemma og ég gær horfði ég á sjónvarpið! Nú er svo komið að þrátt fyrir að ég sitji við nótt sem nýtan dag að þá er nánast óhugsandi að ég geti lokið mikilvægum verkum fyrir jól. Ekki mun mér svo gefast mikill tími milli jóla og nýárs því þá þarf ég að pakka saman allri búslóðinni minni og setja í geymslu því ég flýg út til Kaupinhafnar 30. des og þaðan í framhaldinu til Vínarborgar. Stundum elska ég sjálfan mig svo mikið eða hitt þó heldur!

 P.s. Var ég búinn að minnast á að ég er aukinheldur með kvöldið í kvöld og næsta fullbókað undir að hitta skemmtilegt fólk! Svo þarf ég líka að aka austur til Hornafjarðar til að halda heilög jól. I'm screwd!


Eftir Eistland

Ég fór til Eistlands á DEMYC ráðstefnu þriðjudaginn fyrir viku og er það svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að af einhverjum undarlegum ástæðum sat ég á viðskiptafarrými í fluginu Kaupmannahöfn-Tallinn með Estonian Air. Ég hafði tékkað mig inn alla leið í Keflavík og fengið útgefið brottfararspjald og allt. Þegar ég kom svo inn í flugvélina í Kaupmannahöfn sá ég að ég sat í síðasta sætinu á business class. Öll sætin litu reyndar eins út svo ég bjóst bara við að þeir hefðu gleymt að færa tjaldið, en annað kom á daginn. Í þessu klukkutíma flugi var boðið upp á tveggja rétta máltíð, heitt handklæði til að hressa sig við fyrir matinn, fordrykk, vín með matnum og kaffi og koníak eftir herlegheitin. Þegar ég hafði lokið við að reyna koma ofan í mig koníakinu (ég er ekki mikill koníaksmaður) að þá tilkynnti flugstjórinn að við værum alveg að fara að lenda! Flott leið til að gleyma sér í flug.

 Ég sagði svo meðstjórnarmönnum mínum í stjórn DEMYC frá þessari skemmtilegu lífsreynslu og hvað ég væri undrandi að ég hefði lent þarna. Ég var ekki með flugmiða á business class og ég hafði ekki verið uppfærður. Brottfararspjaldið vísaði mér bara til sætis þarna í hálftómri vél.

 Þegar ég var svo að fljúga til baka frá Tallinn á sunnudaginn að þá voru nokkrir aðrir sem voru að fljúga heim til sín í gegnum Kaupinhafn og allir pössuðu sig að tékka sig inn með mér þar sem enginn vildi að ég fengi aftur að vera á business class nema þau þá líka. Svo rennur röðin í innrituninni áfram og einhvern veginn verður úr að ég er síðastur af mínu fólki að tékka mig inn. Viti menn! Allir lenda á economy NEMA ÉG! ÉG lendi sum sé AFTUR á viðskiptafarrými. Ekki nóg með það að þá var ég aftur í síðustu röðinni og fólkið mitt sat beint fyrir aftan mig, þ.e. í fyrstu sætum á almúgarými og gátu því fylgst með mér dreypa á dýrindis vínum og gæða mér á nautasteikinni sem ég fékk í matinn. Það þarf ekki að taka fram að hinir voru vægast sagt óhressir. Formaður DEMYC sat fyrir aftan mig og átti mjög bágt með að hemja gremju sína því almúginn fékk víst ekki einu sinni vatnsglas. Var því gaman fyrir þau að horfa á mig innbyrða hvern dýrindisréttinn á fætur öðrum og dreypa á öllum þeim drykkjum sem hugurinn girntist. Auðvitað passaði ég mig að sitja þannig að þau ættu greitt sjónarhorn að veizluföngunum;)

 En þetta var ekki allt. Síðar um kvöldið átti ég svo flug heim á Klaka með Icelandair. Þar sem um tengiflug var að ræða og ég hafði ekki fengið brottfararspjald  fékk ég það bara útgefið á hliðinu á Kastrup. Þegar ég kom út í vél kom í ljós að gömul kona sat í sætinu mínu og maður henni við hlið. Ég spurði þau hvort væru í réttu sæti og sögðu þau þá að flugfreyjan hefði plantað þeim þarna og þau vissu ekki meir. Ég fór því og pikkaði í freyjuna næst mér og sagði að nú væru góð ráð dýr, mig vantaði sæti. Hún sagði að það væri ekkert mál en bað mig að fara aftast svo fólkið gæti komið sér fyrir meðan hún kannaði málin. Ég fór því aftast og fór að spjalla við fólkið sem sat þar. Svo þegar allir höfðu tekið sér sæti kom flugfreyjan til baka og sagði: "Það borgar sig að vera kurteis og bíða. Þú færð sæti 4C á sögunni!" Varð því úr að ég flaug á viðskiptafarrými stærstan hluta leiðarinnar! Ekki slæmt það.

 

Eistland var annars frábært. Mikið um sánu og svona og skemmtilega fyrirlestra. Hittum Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra og snilling með meiru. Það var gaman. Auk þess ungráðherra og þingmenn. Vorum samt in the middle of no where á sveitahóteli sem við höfðum alveg fyrir okkur. Það gerði stemmninguna mjög skemmtilega. Tvær tegundir af sánu og arinstofa og læti.


Liðið fær flog

Var að dunda mér í vinnunni áðan og bjó til stórt skjal sem ég skrifaði á Socialism is not a cure but a cause for poverty. Hengdi það svo upp í kaffistofunni hér í vinnunni. Býst fastlega við að starfsfélagar mínir eigi eftir að fá nett fyrir hjartað og upphugsa leiðir til að láta mig þjást. Múhahahaha

Ný vinnuvika

Helgin var í alla staði ágæt. Á laugardag bauð ég nokkrum valinkunnum einstaklingum að borða með mér. Var ég nú aðallega að leika mér í eldhúsinu, bauð upp á léttsteikt hrefnukjöt í forrétt, chili í aðalrétt með heimagerðu guacamole og svo æðislegan desert a la Nigella í eftirrétt. Heppnaðist í alla staði með ágætum. Á sunnudag svaf ég út og fór svo niður á Bókhlöðu að stúdera. Kom heim við lokum Hlöðunnar og ætlaði mér að halda áfram lærdómi. Georg Brynjarsson fór að pestera mig á msn og biðja mig um að bjóða sér og spússa sínum í mat. Var það allgjörlega á skjön við öll mín plön og gaf ég mig ekki... fyrst um sinn. Eftir nöldur og nag féllst ég á að baka handa þeim pizzu sem ég og gerði. Þeir fengu svo að gista í gestaherberginu í nótt. Stakk þá svo af og fór í fóbó kl. 22 og þegar ég kom til baka voru þeir farnir að sofa. Ég aftur á móti fór þá að taka til, lagðist svo til hvílu en var vaknaður kl. 06 í morgun til að fara í ræktina! Átti svo notalega stund með fréttablaðinu í morgun, tók til morgunmat handa þeim félögum (sem nb. voru ekki farnir á fætur þegar ég fór í vinnuna) og var svo mættur tímanlega hér í morgun.

 Skipulag dagsins fellst aðallega í því að vinna til fjégur og fara þá á hlöðuna. Eftir lokun kíki ég svo kannski í ræktina veit ekki, tók amk með mér íþróttafötin í morgun. Eins gott að vera orðinn fitt fyrir Vín. Ekki vil ég vera Vínarsvín múhahahahaha


Bloggarar

Ég legg til að Össur Skarphéðinsson íhugi alvarlega að hætta á þingi og snúa sér alfarið að bloggi. Það verður að játast að karlinn er með skemmtilegri pennum landsins. Furðulegt af Ingibjörgu að játa að Fylkingin hennar sé í lamasessi. Ég efast um að hún nái að byggja upp þetta traust sem hún talaði um. Sé það bara ekki fyrir mér, það er of mikið af fólki innan Samfylkingarinnar sem vinnur hvort gegn öðru. Sést það nú bara bezt á því hversu brösulega hefur gengið hjá Sollu.

Breytingar

Já, eins og glöggir lesendur sjá að þá hafa orðið nokkrar breytingar á þessum fannál. Nú hyggst ég einbeita mér að komandi utanferð minni og nýta svo bloggið til að deila reynslu minni úr stórborgarlífinu með lesendum þegar þar að kemur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband