Vínarborg

Var í Prag um helgina! Það var rosalega gaman, sól og sumar. Held að það hafi verið fimmta skiptið mitt í Prag svo ég er nú farinn að þekkja borgina ágætlega, í hið minnsta miðbæinn. Fór á tónleika í Rudolfinum á föstudags- og laugardagskvöld, en um var að ræða norræna tónlistarviku í Prag þar sem leikin voru nútímaverk eftir norræn tónskáld. Á föstudeginum fór ég á tónleika þar sem leikið var verk eftir Atla Heimi og á laugardeginum var leikið verk eftir Jón Norðdahl. Bæði verkin voru mjög skemmtileg og ekki spillti fyrir að hlýða á þau í þessu undurfagra tónlistarhúsi.

 Annars nýtti ég tíma minn í Prag til að hitta vini og slappa af. Átti reyndar fund með aðstoðarmanni forsætisráðherra Tékklands og svo framkvæmdastjóra International Republican Institute. Báðir þessir fundir voru út af DEMYC. Fróðlegir og skemmtilegir.

 Náði líka að þessu sinni að kynna mér mér nokkuð vel barlífið í Prag og  fann bar sem ég get hiklaust mælt með. Um er að ræða staðinn Bar and Books við Týnska götu (gatan liggur mjög nálægt kirkjunni á gamla torgi). Þetta er svona flottur staður en samt mjög lítill og kósý.

 Núna er ég aftur kominn til Vínar og virðist hafa tekið góða veðrið frá Prag með mér!


Belgrad

Jæja, loksins kemur nýtt blogg eftir að mér tókst að hafa uppi á lykilorðinu sem Mogginn úthlutaði mér eftir að hafa breytt lykilorðum allra bloggara hjá sér. Mér tókst að gleyma því lykilorði en nú er ég búinn að leggja það á minnið.

Ég er staddur í Belgrad í Serbíu og er að taka þátt í DEMYC seminari. Ég tók næturlest frá Vínarborg og var það bara ágætt. Ég var kominn til Belgrad rétt fyrir sjö í morgun. Hótelið er fínt og nú ætla ég að fara í sturtu og fá mér morgunmat. Reyni svo kannski að læra aðeins fram til klukkan tíu þegar lætin byrja.

Annars er voðalega lítið að frétta, nema hvað að svo virðist sem að haustið hafi haldið innreið sína í Vín eftir að við vorum búin að hafa sumar í nokkra daga. Vona að þetta breytist sem allra fyrst og góða veðrið komi aftur!

Um næstu helgi er ég svo að fara til Prag!


Veikur

Ég er búinn að liggja veikur heima í tvo daga með ælupest! Ekki skemmtilegt, auk þess sem ég hef algjörlega ekkert að gera. Tók upp á því í morgun að fara að rannsaka eBay. Endaði svo þannig að nú er ég búinn að bjóða í uppþvottavél:D Alveg heilar 25 evrur! Um er að ræða notaða borðuppþvottavél sem myndi alveg bjarga lífi mínu. Djöfull vona ég að ég fái hana og á þessu verði, 7 klukkutímar eftir af uppboðinu svo cross your fingers!

Hvað annað er ég búinn að aðhafast, alveg nákvæmlega ekki neitt. Þar sem ég er nú allur að hressast að þá ætla ég nú að reyna að gera eitthvað af viti í kvöld. Kannski bara læra aðeins. Í hið minnsta ætla ég í vinnuna á morgun. Það versta við þessi veikindi er að ég missi af óperunni í kvöld, búhúúú! Ég var búinn að skipuleggja óperuferð með hinum praktiköntunum á la Bohème. Það verður víst ekkert úr þeirri ferð hjá mér.


Heilsuræktin

Heilsuræktin mín er bara fyndin fyrir utan að það sem ég hef áður sagt að þá held ég að ég hafi ekki minnst á að það eru konur sem þrífa karlaklefann, ÞEGAR KARLAR ERU Í STURTU OG KLÆÐA SIG. Fékk smá sjokk fyrst eitt skiptið þegar ég var að þurrka mér eftir sturtu og kona gekk til mín og spurði hvort hún ætti að taka handklæðið (við fáum 2 stór handklæði og eitt lítið í hvert skipti og hún spurði hvort hún ætti að taka litla handklæðið). Ég þarna alsnakinn og eldri konan þarna að biðja um handklæðið mitt! Vissi ekki alveg hverju ég átti að svara til. En þar sem enginn virðist kippa sér upp við þetta að þá er mér svosem alveg sama líka. Velti bara fyrir mér hvort það séu karlar sem þrífi kvennaklefana.

Svo var það að ég kom í ræktina í gær og þá brá mér líka. Svo virðist sem að það sé eitthvað strandaþema í gangi. Í hið minnsta var strákurinn í afgreiðslunni klæddur í ekkert, nema mjög efnislitlar speedo sundskýlu með havaí-blómahring um hálsinn. Þessi blómahringur virtist svo vera þemað hjá öllum öðrum starfsmönnum. Fyrsta hugsun sem flaug í gegnum höfuðið á mér var %u201Eúps, fór ég óvart inn á gógó bar%u201C. Í hið minnsta fór ég að velta fyrir mér á hlaupabrettinu hvort ég væri að misskilja eitthvað, svona með hliðsjón af: oft á tíðum spandexoutfitt á gestunum, eldri konur í karlaklefanum og nú nánast naktir starfsmenn (reyndar bara einn) með havaíblómahringi.


Fyrsta matarboðið í Vín!

Jæja, þá er komið að fyrsta matarboðinu í Vín. Þetta var strategísk ákvörðun, því ásamt því að mig var farið að lengja eftir matargestum og að taka upp sleif í eldhúsinu að þá átti ég eftir að koma mér fyrir og hvað er betra til þess fallið að reka á eftir manni en að bjóða gestum í heimsókn!

 Ég fæ frönskuhópinn minn (þ.e. Frakkann Adrian og Norðmanninn Karine), en við hittumst og Adrian kennir okkur frönsku, í mat. Ég ákvað að vera með franskt þema og mun matseðilinn líta eitthvað á þessa leið út:

a) Aperitif auðvitað með smáréttum (nennti samt ekki að fara út í einhverja canapés framleiðslu)

b) Forréttur: eina sem er ekki franskt, kúrbítur og þistilhjörtu með parmaskinu og parmesanosti og dressingu. Vín: Chablis, Domaine Sainte Claire 2005

c) Aðalréttur: Tartifle og salat. Vín, sama og með forréttinum þar sem ég fann hvergi Vin blanc de Savoie hér í Vínarborg

d) Fromage: úrval af frönskum ostum. Vín: Chateuneuf-du-Pape 2003, rauðvín frá suðaustur Frakklandi. Verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvort þetta er Rónarvín eða frá Provance

e) Eftirréttur: Frönsk súkkulaðiterta. Vín: Sama og með ostunum

f) kaffi og súkkulaði. Mér finnst koníak ógeð og ákvað því að sleppa því


Forstöðumaður alþjóðastofnunar HÍ

Ekki held ég að það verði mikil rós í hnappagat Háskóla Íslands að hafa ráðið Silju Báru sem forstöðumann alþjóðastofnunarinnar. Ég efast reyndar ekkert um að hún sé góður kennari, en ég missti allt álit á henni þegar hún sagði í fjölmiðlum að umræður um varnarmál einkenndust allt of mikið af karllægum gildum! Þetta kann svosem að vera rétt hjá henni, ég hef ekki hundsvit á því, en þetta er ekki beint svona kommentið sem maður býst við frá sérfræðingi í umræðunni!

 En kannski á maður ekki að vera of fljótur að dæma, leyfum konunni að sanna sig fyrst (eða ekki). Ég óska Silju Báru samt til hamingju með starfið þó ég þekki hana ekki neitt. Hitti hana reyndar einu sinni á djamminu í Reykjavík og spjallaði aðeins við hana þá.


Rúinn inn að skinni

Ég hef aldrei upplifað það áður að vera bókstaflega rúinn inn að skinni í allri merkingu þeirra orða! Ég fór í klippingu áðan og þar sem ég hef hingað til haft miður góða reynslu af hárgreiðslufólki hins þýzkumælandi heims að þá ákvað ég nú að vera með vaðið fyrir neðan mig og virkilega fara á stofu sem hefur getið sér góðan orðstír. Mælt hafði verið með honum Hanzi á stofunni Kastor og Pollux og sagt að hann væri mjög góður, en þess jafnframt getið að hann væri mjög dýr. Jæja, ég lét til leiðast, ákvað svona með sjálfum mér að betra væri að svelta í nokkra daga í stað þess að þurfa að ganga með hauspoka í tvær vikur. Ég hefði betur íhugað þetta betur!

 Ég fór sum sé á stofuna og útskýrði vel og vandlega hvernig ég vildi láta klippa mig. Síðan fór ég bara að lesa blað og svo byrjaði klippingin. Og hann klippti, og klippti og klippti. Í samtals eina og hálfa klukkustund sat ég í stólnum hjá honum! og hann gjörsamlega klippti bara allt hár í burtu! Með skærunum sínum tókst honum svo til að snoða mig. En hann var lúmskur! Hann klippti svo sáralítið í einu alltaf að mér fannst hann bara ekkert vera að klippa (enda var hann 1.5 klukkutíma að þessu!). Svo þegar útkoman var ljós að þá var ljóst að allt var af mér hárið!

 Svo kom að greiðsludögum og þurfti ég að reiða fram 68 evrur fyrir þetta! Þetta er án gríns hræðilegasta klipping sem ég hef fengið, ég er með svona hermannaklippingu. Ég bjóst allt eins við því að hann rétti mér umsóknareyðublað fyrir útlendingaherdeildina þegar ég var telja saman aurana til að eiga fyrir klippingunni. Ég hefði betur haft bara allt gamla hárið, ég hefði getað klippt þetta betur með eldhússkærunum heima og notað peninginn sem sparaðist til að fæða eins og eitt þorp í Afríku


Alan Chambers

Horfði á Kastljósþátt gærkvöldsins eftir að hafa komið úr frábæru matarboði hjá Jóhönnu Bryndísi og hennar ektamanni. Gestur þátttarins var bandaríkjamaðurinn Alan Chambers, sem helztu hefur það til frægðar unnið að hann hætti að vera samkynhneigður og ferðast nú um heiminn og boðar þessa lausn. Ég verð að viðurkenna að hann kom nokkuð vel fyrir í Kastljósþættinum, það er fullljóst að hann er þrautreyndur í að koma fram og ræða þessi mál. Hann skilaði sínu vel og verð ég að játa að út frá því hvernig hann kynnti sig og sína lífssýn að þá get ég ekki verið sammála honum að þetta er valmöguleiki. Sem frjálshyggjumaður að þá styð ég að sjálfsögðu frjálst val fólks.

 Á hvaða forsendum tel ég að hann fari með rétt mál þegar hann segir að þetta sé raunhæfur valmöguleiki?

 Jú, eins og það er möguleiki fyrir kaþólska presta að lifa skírlífi (þó að það virðist nú vera misbreztur á því eins og öðru) að þá hlýtur það að vera möguleiki fyrir samkynhneigða að afneita sinni kynhneigð með sama hætti.

 Ef maður er kominn þetta langt að þá hlýtur jafnframt að vera valmöguleiki að ganga skrefinu lengra með einstakling af gagnstæðu kyni.

 Eins og kom fram hjá Chambers að þá tók hann þessa ákvörðun út frá trúarlegum forsendum. Hann sagði jafnframt (eða það mátti lesa það milli línanna hjá honum) að hann hefur enn kendir til karlmanna, hann bara afneitar þeim.

 Í stuttu máli sagt að þá velur hann að lifa í afneitun því hann telur það færa sér meiri gleði að lifa í sátt og samlyndi við sína trú.

 Í raun held ég að það sé ekki hægt að gagnrýna þetta, og séu einhverjir úti sem hafa áhuga á því að gera svipað að þá hlýtur þeim að vera það leyfilegt.

Ég leyfi mér samt að efast um að þeir séu margir, ef nokkrir.

 Ég hvet aftur á móti Jón Val Jensson og aðra sem harðast hafa farið fram gegn samkynhneigðum að láta ekki staðar numið í málefnum samkynhneigðra og ræða um aðrar syndir samfélagsins skv. Biblíunni. Til dæmis saknaði ég að heyra ekki röddu Jóns á jólaföstu þegar landsmenn gúffuðu í sig hverju syndugu svíninu á fætur öðru, eða þá ólánsömu unglinga sem bölva föður sínum eða móður! Séu samkynhneigðir í vondum málum, hvað þá þeir sem tala illa um foreldra sína! Bið ég Jón vinsamlegast að ræða þessi nauðsynlegu mál líka.


Á að taka svona fólk alvarlega?

Umræður um flokksbróður minn Stefán Friðrik , flokksbróður minn á málefnunum eru nú ekki beint málefnaleg, þau eru hreint og beint rætin og ekki þeim sæmandi sem þar eru með kjaftavaðal. Ég verð að játa að ég er ekki reglulegur lesandi málefnanna en ég kíki þarna af og til og eftir að hafa lesið skrifin að þá áttaði ég mig á því hví ég er ekki reglulegri gestur en raun ber vitni. Fólkið, sem þarna venur komur sínar, í hið minnsta sumir hverjir, sem voru að skrifa um Stebba, yrðu seint taldir merkilegur pappír. Ég ætla nú ekki að gerast eins ómerkilegur og ungfrú Cecil og fara að herma eitthvað misjafnt upp á fólk, það er nóg fyrir lesendur að kíkja á málefnin og lesa sér sjálfir til. Maður spyr sig samt stundum hvort það sé nauðsynlegt að búa til einhvers konar vefsiðareglur. Ég efast til dæmis um að fólk færi fram með slíkum hætti, með ásökunum og rógburði, lygum og svívirðingum í öðrum miðlum prentaðs máls.

 

 


Þýzka

Samantha ritari hér í sendiráðinu hefur bent mér á það að þýzkan sem ég nota í bréfum sem ég sendi frá mér hefði hæft á keisaratímabilinu en sé kannski orðin aðeins of fjálgleg svona í nútímanum. Auðvitað geri ég þá enn meira í því að halda í formlegheitin. Annars er ótrúlegt hvað "austurrísk" þýzka er mun formlegri en venjuleg.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband