Tálknafjör 2006

Jónas er búinn að skipuleggja útihátíðina Tálknafjör 2006 um verzlunarmannahelgina. Þeir sem hafa áhuga er bent á síðuna hans

Í fréttum er þetta helzt

Björgunarsveitir víðs vegar af landinu skipuleggja nú leit að Sigrúnu Þöll Hauksdóttur Kjerúlf. Lögreglan hefur fengið vísbendingar um að Sigrún hafi síðast sést á Norvesturlandi um helgina, en hún hefur þó ekki fundist enn. Talið er að hún kunni að vera í glasi og er leitin skipulögð með það í huga. Áætlað er að leita í Húnavatnssýslu í nótt en björgunarsveitin á Egilsstöðum hefur þó skipulagt leit við fyrsta ljós í fyrramálið á leitarsvæðinu í kring um Kárahnjúka. Talið er að hún sé ein á ferð, þó hún kunni að vera í slagtogi við Portúgala ofan af fjöllum. Það er þó talið ólíklegt þar sem Sigrún kann einungis hrafl í spænsku. Öllum upplýsingum skal beint til lögreglunnar í Reykjavík.

Bjartsýni kjósum framsókn

Annars eru framsóknarmenn nokkuð góðir. Þeir átta sig greinilega á því í að það er mikil bjartsýni fólgin í því að fólk kjósi þá, enda segja þeir ótt og títt í framsóknarsömbunni: bjartsýni kjósum framsókn etc.


Grenivíkurglennan og Kondí í Kanaan

Bjarni Már Magnússon er snillingur, það ætti engum að vera leynt. Nýjasti pistill hans á Deigluna er sönnun fyrir þessu. Ég hló og hló þegar ég las hann: Pistill Bjarna Þetta lag er líka algjör steypa, sumarsmellurinn í ár!: Framsóknarsamba Pistill Hannesar Hólmsteinar Gissuararsonar í Fréttablaðinu um helgina undir fyrirsögninni Forseti hægrimanna, er líka gargandi snilld. Ég las greinina fyrir foreldra Freyju og við svoleiðis grenjuðum úr hlátri.

Lýst eftir Sigrúnu!

Lýst er eftir Sigrúnu Þöll Hauksdóttur Kjerúlf, en síðast spurðist til hennar í Netheimum laugardaginn 3. júní 2006. Allir sem hafa orðið hennar varir eru beðnir um að setja sig í samband við lögregluna í Reykjavík. Talið er að hún hafi farið í óbyggðir á Austurlandi.

Kaffi

Dagurinn í dag er búinn að fara í það að stórum hluta að fínstilla hjá mér kaffikvörnina. Það er nefnilega ekki alveg sama malað kaffi og malað kaffi. Kaffið verður að vera malað með þeim hætti að þegar búið er að þjappa því í greipina (ca 20 kílóa þungi) eiga að koma nákvæmlega 3 cl af kaffi á ca 25 sekúndum. Tíminn er reyndar svona frá 23 - 30 sek, en gott er að miða við 25. Þetta er aðeins erfiðara en að segja það á kvörninni hjá mér þar sem þú þarft að prófa þig áfram. Ég er búinn að stilla hana núna og vonandi helzt hún rétt stillt í einhvern tíma. Samfara þessum stillingum mínum drakk ég auðvitað óheyrilegt magn af kaffi, en mér reiknast til að ég hafi farið með um 300 g af kaffibaunum í þetta. Reyndar drakk ég ekki nema svona þriðja hvern bolla en samt sem áður að þá voru þeir talsvert margir. Núna líður mér illa og er alveg uppveðraður. Kaffibaunirnar sem notaðar voru í þetta voru frá Sólarkaffi á Bíldudal og voru mjög góðar. Þarf að fara þangað greinilega á morgun og kaupa meira þar sem hálfa kílóið sem ég keypti um daginn er langt komið.

Early bird

Ég var kominn á fætur í morgun kl. 07.54! Ég fékk nefnilega símhringingu frá einum Þjóðverja sem var orðinn uggandi um félaga sína sem ekki höfðu látið sjá sig í höfn. Ég byrjaði á því að reyna að ná í viðkomandi bát í talstöðinni og þegar það gekk ekki hringdi ég í vaktstöð siglinga til að athuga hvort þau sæu ekki bátinn. Eitthvað var nú undarlegt um að vera þar því báturinn sást ekki og skv. STK tækinu kom báturinn til hafnar í dag kl. 16.55, já einmitt, vaktstöðinn var farinn að sjá fram í tímann;). Þá voru aðeins tveir möguleikar í stöðunni. Fara sjálfur að leita að bátnum eða ræsa út björgunarlið. Ég og Finnur, pabbi Freyju, fórum því og keyrðum á bíl út með firði. Ég var handtalstöðina á mér og reyndi af og til að ná bátinn. Það var svo ekki fyrr en við vorum komnir alveg út með firði að ég náði í þá í talstöðinni sakaði þá ekki og undu sér bara vel við veiðar. Ekki neyddist ég því til að ræsa út björgunarsveitina og hefja leit að sinni.

Þetta gerði það að verkum að ég var auðvitað kominn á fætur fyrir allar aldir og ekki tók sig svo að skríða aftur upp í rúm þegar ég kom heim. Nú er ég aftur á móti alveg að falla aftur í svefn...


Þetta er allt að koma

Já, nú vantar einungis einn í viðbót til að ég haldi áfram bloggi. Annars ætlaði ég að segja eitthvað stórsniðugt en ég er búinn að steingleyma hvað það átti að vera. Mér tókst að festa lyftarann minn áðan! Hann er fastur í drullu niðri á bryggju. Er ekki nógu gott. Annars eru að renna á mig tvær grímur með Háskólann á Bifröst. Ég er engan veginn að átta mig á hvað ég er að fá fyrir peningana þarna. Hin meinta þjónusta við nemendur hefur eitthvað látið standa á sér. Skólinn á að byrja um næstu helgi og ekki hefur verið send út stundatafla, bókalistar eru að vísu komnir á heimasíðuna en ég hef ekkert heyrt frá skólanum! Ekki neinar upplýsingar um hvernig standa skuli að greiðslu skólagjalda eða hvenær, ekki fengið aðgang að innra kerfi skólans (sem hlýtur að vera til eins og Ugla) og ekki fengið neinar upplýsingar um í hvaða kúrsa ég vil vera skráður í (en skólagjöldin miðast við hversu margar einingar maður þreytir á önn). So far verð ég að segja að Háskóli Íslands veitir muuun betri þjónustu (aldrei datt mér í hug að HÍ gæti komið vel út úr þjónustusamanburði). Ég hef grun um að eitthvað muni Páll láta heyra í sér eftir helgi.

Vísitasía á Vestfjörðum

Ég veit að ég sagðist ekki ætla að blogga meira nema í hið minnsta fimm manns myndu skilja eftir skilaboð. Ég hef þó ákveðið að svindla aðeins en ég ítreka að ekki verður bloggað af fullum krafti nema kröfur mínar verði uppfylltar!

Ég lýsi eftir fólki sem hafði lofað upp á æru og trú að viðkomandi ætlaði heldur betur að gera víðreist um Vestfirði í sumar og vísitera mig og aðra góða menn! Enn sem komið er hefur einungis Freyja Finnsdóttir rekið inn nefið. Hvar eru þessar raddir núna sem kyrjuðu í kór í apríl að nú ætti að leggja land undir fót í sumar! Þær hljóma eitthvað hjáróma nú um stundir! Ljóst er að nú fer hver að verða síðastur að koma í heimsókn.

Annars er veðrið hér nú um stundir vægast sagt ógeðslegt. Það rok og rigning og ekki hundi út sigandi.


Komment

Þar til í hið minnsta 5 manns kommenta hjá mér í viðbót á bloggið verður ekki um frekari færslur að ræða.

Góða helgi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband